Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 664/2020-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 664/2020

Fimmtudaginn 18. mars 2021

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 16. desember 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 7. september 2020 og rökstuddri 20. október 2020, á umsókn hennar um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. september til 31. desember 2020.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 24. ágúst 2020, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. september til 31. desember 2020. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 25. ágúst 2020, með þeim rökum að hún samræmdist ekki reglum Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi þann 7. september 2020 og staðfesti synjunina. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun þann 10. september 2020 og var hann veittur með bréfi, dags. 20. október 2020.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. desember 2020. Með bréfi, dags. 17. desember 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 22. janúar 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. janúar 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún geti ekki sætt sig við ákvörðun Reykjavíkurborgar, hún telji hana ranga og byggða á misskilningi, bæði hvað varði vinnufærni hennar í dag sem og þá starfsemi sem fari fram í B. Óumdeilt sé að kærandi hafi uppfyllti öll skilyrði þess að fá fjárhagsaðstoð á grundvelli reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg og hafi fyrir þessa tilteknu synjun notið fjárhagsaðstoðar á grundvelli reglnanna frá árinu 2019. Það eina sem hafi breyst hafi verið ákvörðun kæranda að dvelja í eina til tvær annir í B. Sú dvöl sé hugsuð sem liður í endurhæfingu og sjálfsstyrkingu. Reykjavíkurborg hafi synjað umsókn kæranda um námsstyrk á grundvelli reglnanna um fjárhagsstoð með vísan til þess að B uppfylli ekki skilyrði reglnanna um nám og hafi svo einnig synjað henni um áframhaldandi fjárhagsaðstoð á grundvelli sömu reglna á þeim grundvelli að þar sem hún sé í 100% námi geti hún ekki verið óstarfhæf og uppfylli þar með ekki lengur skilyrði reglnanna um fjárhagsaðstoð.

Eins og fram komi í læknisvottorði frá 17. september 2020 hafi kærandi til margra ára átt við fjölþættan og langvinnan heilsufarvanda að stríða. Veikindi kæranda hafi gert það að verkum að hún hafi ekki verið vinnufær á almennum vinnumarkaði lengi og eins og fram komi í læknisvottorðinu verði hún það ekki næstu misserin. Þá hafi kærandi margoft á síðastliðnum árum reynt að stunda nám á framhaldsskólastigi en veikindi hennar hafi verið þess eðlis að það hafi reynst henni ómögulegt. Með stuðningi fjölskyldu sinnar hafi kærandi leitað ýmissa leiða í þeim tilgangi að ná betri heilsu og meiri almennri virkni. Eitt úrræði sem henni hafi verið bent á að gæti hjálpað væri B. Án þess að hafa um það mörg orð þá sé ein af meginhugsunum með B að hjálpa fólki að byggja sig upp, afla sér reynslu og nýrrar færni án þess að nemendur taki hefðbundin próf, fái einkunnir eða gráður að námi loknu. Algengt sé að fólk sem ekki hafi lokið framhaldsskólaprófi eða hafi ekki burði til að stunda hefðbundið framhaldsskólanám, meðal annars vegna veikinda, sæki nám í B, til dæmis í þeim tilgangi að byggja sig upp þannig að því sé kleift að stunda annaðhvort atvinnu eða sækja frekara nám. Kærandi hafi viljað, meðal annars á grundvelli ráðlegginga fagaðila, skipta um umhverfi, sækja endurhæfingu innan um fólk á svipuðum aldri og jafnframt auka grunnfærni sína á ýmsum sviðum.

Kærandi tekur fram að hún hafi óskað eftir námsstyrk ásamt innritunar-og bókakostnaði fyrir tímabilið 1. september til 31. desember 2020 hjá þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar en þeirri umsókn hafi verið hafnað þann 27. maí 2020 á þeim grundvelli að námið í B væri hvorki lánshæft samkvæmt reglum Menntasjóðs námsmanna né uppfylli námið skilyrði fyrir námsstyrk hjá borginni. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs hafi staðfest þá synjun og kærandi hafi ekki kært þá niðurstöðu þar sem hún hafi talið einsýnt að hún ætti enn rétt á áframhaldandi fjárhagsaðstoð á grundvelli áðurnefndra reglna frá Reykjavíkurborg.

Synjun Reykjavíkurborgar byggi á því að kærandi sé hvorki vinnufær né óvinnufær í skipulagðri og viðurkenndri virkni sem miði að því að hún nái vinnufærni. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs hafi lagt til grundvallar að kærandi sé í 100% námi og teljist þar með vera vinnufær og uppfylli þar með ekki skilyrði reglnanna um fjárhagsaðstoð. Þeirri niðurstöðu hafi nefndin komist að, þrátt fyrir fyrirliggjandi læknisvottorð sem staðfesti hið gagnstæða. Kærandi geti hvorki fallist á þessa niðurstöðu né rök nefndarinnar. Það hljóti að liggja í hlutarins eðli að fyrirbæri eins og B, sem geri ráð fyrir að nemendur dvelji einungis í mesta lagi eitt skólaár við skólann en námið þar sé hvorki metið til eininga sem nýtist upp í nám, til dæmis í framhaldsskóla, né útskrifist nemendur með gráðu þegar dvölinni við skólann ljúki, geti ekki talist nám í hefðbundinni og almennri merkingu þess orðs. Áfrýjunarnefndin hafi einmitt sagt það þegar hún hafi synjað kæranda um námstyrk að námið í skólanum uppfylli ekki skilyrði reglnanna um nám. Nefndin sé að leggja hefðbundinn orðskilning og almenna málvenju til grundvallar ákvörðun sinni án þess að skoða hvað felist í námi við B. Það sé klárlega þversögn í afstöðu nefndarinnar. Á sama tíma og kæranda hafi verið hafnað um námsstyrk þar sem sú endurhæfingarleið, sem hún hafi valið og hafi verið ráðlagt að sækja, uppfylli ekki skilyrði reglnanna um nám, þ.e. teljist í raun ekki nám samkvæmt reglunum, þá sé henni hafnað um fjárhagsaðstoð á þeim grundvelli að hún sé námsmaður og þar af leiðandi 100% vinnufær sem sé, eins og áður segi, þvert á fyrirliggjandi læknisvottorð sem staðfesti 100% óvinnufærni hennar. Vegna veikinda kæranda hafi hún hvorki getað stundað nám á framhaldsskólastigi né stundað vinnu. Kærandi telji að allir sem kynni sér starfsemi B sjái að þar sé ekki um að ræða nám í hefðbundnum skilningi þess orðs heldur sé dvölin þar hugsuð meðal annars til að styrkja fólk sem glími við heilsufarsvandamál eins og eigi við um hana og veita því ýmiss bjargráð sem nýtist þá í þeirri viðleitni að ná upp meiri og betri almennri virkni í lífinu. Í tilviki kæranda sé ljóst að dvölin í B sé hugsuð sem liður í endurhæfingu hennar.

Kærandi vísar til þess að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga sem ekki geti séð sér farborða án aðstoðar, sbr. IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum, sbr. og III. kafla reglna þessara. Allan óskýrleika í reglum um fjárhagsaðstoð beri að túlka umsækjanda í vil. Kærandi sé sérstaklega ósátt við að litið sé fram hjá afdráttarlausu læknisvottorði sem staðfesti algjöra óvinnufærni hennar síðastliðin og komandi misseri. Þá sé námið í B ekki hefðbundið nám eins og nefndin hafi sjálf sagt í synjun sinni vegna umsóknar kæranda um námsstyrk. Kærandi voni að tekið verði tillit til framangreindra raka hennar, að synjun áfrýjunarnefndar velferðarráðs verði felld úr gildi og að henni verði veitt áframhaldandi fjárhagsaðstoð, sem hún vissulega eigi rétt á, á grundvelli reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé með langa sögu um félagslegan vanda og hafi verið í samfelldri þjónustu þjónustumiðstöðvar C frá því í mars 2019. Kærandi hafi frá unglingsaldri glímt við mikla vanlíðan og kvíða, auk þess að vera greind með ADHD. Málefni kæranda hafi verið í langvarandi vinnslu hjá barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) en einnig hafi hún verið til meðferðar hjá sálfræðingi. Kærandi hafi stundað nám í D með námsstyrk frá Reykjavíkurborg haustið 2019. Þar hafi kærandi staðist alla áfanga og fengið góða umsögn. Eftir það hafi kærandi flosnað upp úr námi en um miðjan september 2020 hafi hún ákveðið að fara í B. Umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð hafi verið synjað þar sem hún samræmdist ekki 8. og 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Kærandi hafi annars vegar sótt um að vera á fjárhagsaðstoð samhliða námi en hún sé óvinnufær samkvæmt læknisvottorði og hins vegar að fá greidda fulla grunnfjárhæð, samkvæmt 1. mgr. 11. gr., án þess að vera með þinglýstan húsaleigusamning og vera áfram með lögheimili hjá foreldrum sínum í Reykjavík.

Reykjavíkurborg vísar til þess að í 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga sé kveðið á um að sveitarstjórn skuli setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar. Meðferð þeirrar umsóknar sem hér um ræði hafi farið samkvæmt reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg með áorðnum breytingum sem hafi tekið gildi þann 1. janúar 2011 og verið samþykktar í velferðarráði Reykjavíkurborgar þann 17. nóvember 2010 og í borgarráði 25. nóvember 2010. Í 1. gr. reglnanna segi að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geti séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, sbr. III. kafla reglna um fjárhagsaðstoð. Í 2. gr. reglnanna sé áréttað að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára, sbr. 19. gr. laga nr. 40/1991.

Í II. kafla reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavík sé að finna ákvæði sem lúti að rétti til fjárhagsaðstoðar. Við mat á því hvort umsækjandi geti átt rétt til fjárhagsaðstoðar samkvæmt reglunum skuli meðal annars horft til 8. gr. reglnanna sem kveði á um óvinnufærni samkvæmt læknisvottorði. Í 2. málsl. 7. mgr. 8. gr. reglnanna segi:

„Hafi umsækjandi ekki fengið atvinnuleysisbætur vegna veikinda eða hann er ekki fær um að sinna atvinnu vegna veikinda skal hann framvísa læknisvottorði en læknisvottorð skulu vera útgefin af heilsugæslu eða sérfræðilækni sem annast mál einstaklingsins.“

Þegar umsækjandi hafi staðfest óvinnufærni sína með læknisvottorði skuli ráðgjafi og umsækjandi vinna einstaklingsáætlun þar sem fram komi mat á færni og með hvaða hætti einstaklingur geti sinnt virkni sem miði að því að umsækjandi nái vinnufærni að öllu leyti eða að hluta. Um geti verið að ræða viðtöl hjá sérfræðingi, þátttöku í átaksverkefnum, námskeiðum, starfsþjálfun eða öðru því sem henti út frá einstaklingsbundnu mati og sé í samræmi við markmið umsækjanda. Þau viðmið hafi mótast í framkvæmd að um sé að ræða þjálfun eða virkni hjá viðurkenndum aðilum og reglubundin viðtöl við ráðgjafa á þjónustumiðstöð. Með því að flytja búferlum á E og stunda þar nám geti kærandi ekki haldið áfram að sækja reglubundna þjónustu og virkni hjá sínum ráðgjafa á þjónustumiðstöð eða öðrum viðurkenndum meðferðaraðilum í samvinnu við þjónustumiðstöð. Að auki hafi kærandi ekki gert einstaklingsáætlun í tengslum við umsókn um fjárhagsaðstoð sem hér um ræði. Þá hafi B ekki talist til viðurkenndrar meðferðar með virkni og vinnufærni að leiðarljósi. Auk framangreinds verði að telja að endurhæfing sjúklinga, hvort sem sé til styttri eða lengri tíma, sé heilbrigðismál og því á verksviði ríkis að tryggja slíka þjónustu og niðurgreiðslu kostnaðar vegna þeirra.

Kærandi haldi því fram að það sé þversögn í afstöðu áfrýjunarnefndar velferðarráðs þar sem henni hafi einnig verið hafnað um námsstyrk hjá Reykjavíkurborg þann 27. maí 2020 fyrir tímabilið 1. september 2020 til 31. desember 2020 þar sem nám í B væri hvorki lánshæft nám samkvæmt reglum Menntasjóðs né uppfylli skilyrði reglna Reykjavíkurborgar um námsstyrk. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs hafi staðfest synjun þjónustumiðstöðvar um námsstyrk þann 27. maí 2020. Þá niðurstöðu hafi kærandi ekki kært til úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem hún hafi talið einsýnt að hún ætti þá rétt á áframhaldandi fjárhagsaðstoð. Í ljósi framangreindra málsástæðna kæranda telji Reykjavíkurborg rétt að skýra á hvaða grundvelli framangreind synjun hafi verið byggð, en ítreki að kærandi hafi ekki kært þá synjun til úrskurðarnefndar velferðarmála og því sé sá hluti málsins ekki til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Í 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg komi fram að heimilt sé að veita námsstyrki í eftirfarandi tilvikum. Aðstoðin miðist við fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt 11. gr. reglnanna ásamt almennum skólagjöldum, innritunarkostnaði og bókakostnaði:

a) til einstaklinga á aldrinum 18–24 ára, sem ekki hafa lokið grunnskóla eða framhaldsskóla og hafa átt við mikla félagslega erfiðleika að stríða.

b) til einstæðra foreldra á aldrinum 18–24 ára, sem ekki hafa lokið grunnskóla eða framhaldsskóla og haft hafa atvinnutekjur sem eru lægri en grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar, sbr. 1. mgr. 11. gr. reglna þessara, undanfarna tólf mánuði. Skilyrði er að umsækjandi hafi átt í félagslegum erfiðleikum.

c) til einstaklinga á aldrinum 18-24 ára sem ekki hafa lokið framhaldsskóla og eiga eftir ólokið að hámarki tvær annir. Um sé að ræða einstakling sem ekki hefur tök á að vinna með skóla og fyrir liggur mat á því að ef ekki komi til aðstoðar sé ljóst að viðkomandi flosni upp úr námi.

d) til einstaklinga sem hafa verið atvinnulausir án bótaréttar eða þegið fjárhagsaðstoð í sex mánuði eða lengur og hafa ekki lokið grunnnámi sem gefur rétt á námsláni.

e) Heimilt er að veita tekjulágum foreldrum fjárstyrk vegna náms 16 og 17 ára barna þeirra. Hér er átt við tekjulága foreldra sem átt hafa í langvarandi félagslegum erfiðleikum. Skal styrkurinn miða að því að greiða áætlaðan bókakostnað og skólagjöld. Leitast ber við að kanna aðstæður beggja foreldra þegar mat er lagt á umsókn um aðstoð vegna barna.

Starfsmaður og námsmaður skulu gera með sér samkomulag um félagslega ráðgjöf þar sem fram kemur m.a. hvernig skuli staðið að skilum varðandi skólasókn, námsframvindu og/eða einkunnir. Einkunnum skal þó ætíð skilað í annarlok.

Miðað skal við að námið leiði til þess að nemandi geti síðar hafið nám sem er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Ákvarðanir um námskostnað skulu teknar fyrir hverja önn og er heimilt að halda námsaðstoð áfram með hliðsjón af námsframvindu.

Meðlag sem umsækjandi kann að fá, reiknist honum til tekna.

Gildistími umsóknar er tveir mánuðir frá samþykkisdegi.

Samkvæmt upplýsingum sem hafi legið fyrir við meðferð málsins vorið 2020 hafi kærandi uppfyllt skilyrði a., […], c. og d. liða 18. gr. reglnanna. Kærandi sé ekki foreldri og því hafi b. og e. liðir 18. gr. ekki átt við um hana. Einnig segi í 18. gr. að starfsmaður og námsmaður skuli gera með sér samkomulag um félagslega ráðgjöf þar sem fram kemur meðal annars hvernig skuli staðið að skilum varðandi skólasókn, námsframvindu og/eða einkunnir. Einkunnum skuli þó ætíð skilað í annarlok. Þá skuli nám leiða til þess að nemandi geti síðar hafið nám sem sé lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Námið í B byggi ekki á prófum, einkunnum, einingum eða gráðum og leiði því ekki til lánshæfs náms. Þetta fyrirkomulag skólans á náminu sé þess valdandi að ekki sé hægt að gera umrætt samkomulag á milli ráðgjafa og námsmanns.

Ákvörðun kæranda að fara í nám á E feli í sér að kærandi hafi valið að stunda nám sem hvorki sé lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna né uppfylli skilyrði fyrir námsstyrk hjá Reykjavíkurborg. Þá uppfylli kærandi ekki heldur skilyrði um að vera á fjárhagsaðstoð samkvæmt reglum Reykjavíkurborgar þar sem kærandi sé hvorki vinnufær né óvinnufær í skipulagðri og viðurkenndri virkni samkvæmt einstaklingsáætlun unninni í samráði við ráðgjafa sem miði að því að kærandi nái vinnufærni. Þá sé ljóst að einstaklingur sem sé fær um að leggja stund á 100% nám sé vinnufær en vinnufærni og fullt nám sé metið að jöfnu. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs hafi því talið að synja bæri umsókn um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. september 2020 til 31. desember 2020 á grundvelli 8. og 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg og staðfest synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar á fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir áðurnefnt tímabil. Samkvæmt framansögðu sé ljóst að ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð, sbr. 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, né öðrum ákvæðum laga nr. 40/1991, með síðari breytingum.

IV.  Niðurstaða

Kærð er synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. september til 31. desember 2020.

Í upphafi telur úrskurðarnefnd velferðarmála ástæðu til að gera athugasemd við þann drátt sem varð á því að Reykjavíkurborg veitti kæranda umbeðinn rökstuðning. Í 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er lögfest sú regla að beiðni um rökstuðning skuli svarað innan 14 daga frá því að hún barst. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi 10. september 2020 en rökstuðningur Reykjavíkurborgar barst kæranda með bréfi, dags. 20. október 2020. Beinir úrskurðarnefndin því til sveitarfélagsins að haga málsmeðferð sinni framvegis í samræmi við framangreinda lagaskyldu.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er kveðið á um inntak fjárhagsaðstoðar. Þar kemur fram í 1. mgr. að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Samkvæmt 5. mgr. 1. gr.  reglnanna skal fjárhagsaðstoð veitt í eðlilegum tengslum við önnur úrræði velferðarráðs, svo sem ráðgjöf og leiðbeiningar, í samræmi við V. kafla laga nr. 40/1991 þar sem kveðið er á um félagslega ráðgjöf. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. reglnanna skal fjárhagsaðstoð að öðru jöfnu vera greidd einn mánuð í senn og ákvarðanir um aðstoð skulu að jafnaði ekki ná yfir lengra tímabil en þrjá mánuði. Þá segir að aðstæður þeirra sem fengið hafa fjárhagsaðstoð lengur en þrjá mánuði skuli kannaðar sérstaklega, félagsleg ráðgjöf veitt í samræmi við V. kafa laga nr. 40/1991 og viðkomandi skuli bent á að leita sér aðstoðar umboðsmanns skuldara.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi hefur þegið fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg frá mars 2019 og þar til henni var synjað um frekari fjárhagsaðstoð í september 2020 á þeirri forsendu að hún hugðist stunda nám við B. Þann 27. maí 2020 hafði henni verið synjað um fjárhagsaðstoð í formi námsstyrks samkvæmt 18. gr. reglnanna og var sú synjun ekki kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Í fyrirliggjandi læknisvottorði, dags. 21. ágúst 2020, kemur fram að kærandi hafi átt við fjölþættan og langvinnan heilsufarsvanda að stríða sem geri það að verkum að hún sé ekki vinnufær á almennum vinnumarkaði. Þá kemur fram að kærandi muni ekki verða vinnufær næstu misseri. Kærandi hefur vísað til þess að dvöl hennar í B sé hugsuð sem liður í endurhæfingu og sjálfsstyrkingu. Að mati úrskurðarnefndarinnar er því óumdeilt að kærandi var óvinnufær á þeim tíma sem umsókn hennar um fjárhagsaðstoð lýtur að.

Í 3. mgr. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð segir meðal annars að þeir einstaklingar sem fái fjárhagsaðstoð til framfærslu á grundvelli læknisvottorðs um óvinnufærni skuli í samvinnu við félagsráðgjafa gera einstaklingsáætlun sem miði að því að umsækjandi nái vinnufærni að öllu leyti eða að hluta. Sinni einstaklingur ekki einstaklingsáætlun skuli greiða hálfa grunnupphæð til framfærslu, sbr. 1. mgr. 3. gr., nema veigamiklar ástæður sem fram koma við mat á aðstæðum umsækjanda mæli gegn því. Læknisvottorð skulu vera útgefin af heilsugæslu eða sérfræðilækni sem annast mál einstaklingsins. Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur komið fram að um geti verið að ræða viðtöl hjá sérfræðingi, þátttöku í átaksverkefnum, námskeiðum, starfsþjálfun eða öðru því sem henti út frá einstaklingsbundnu mati og sé í samræmi við markmið umsækjanda. Þau viðmið hafi mótast í framkvæmd að um sé að ræða þjálfun eða virkni hjá viðurkenndum aðilum og reglubundin viðtöl við ráðgjafa á þjónustumiðstöð. Með því að flytja búferlum á E og stunda þar nám geti kærandi ekki haldið áfram að sækja reglubundna þjónustu og virkni hjá sínum ráðgjafa á þjónustumiðstöð eða öðrum viðurkenndum meðferðaraðilum í samvinnu við þjónustumiðstöð. Þá hafi kærandi ekki gert einstaklingsáætlun í tengslum við umsókn hennar um fjárhagsaðstoð. Að lokum hafi B ekki talist til viðurkenndrar meðferðar með virkni og vinnufærni að leiðarljósi.

Samkvæmt framangreindu gera reglur Reykjavíkurborgar ráð fyrir að einstaklingsáætlun liggi fyrir við veitingu fjárhagsaðstoðar á grundvelli læknisvottorðs um óvinnufærni. Þar sem slík áætlun lá ekki fyrir í tengslum við umsókn kæranda er skilyrði 1. málsl. 3. mgr. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð ekki uppfyllt, en ekki var eingöngu um það að ræða að gerð hefði verið einstaklingsáætlun sem ekki var sinnt. Auk þess telur úrskurðarnefndin ljóst að með því að flytja búferlum á E til að stunda nám við B er kærandi ekki áfram að sækja reglubundna þjónustu og virkni með sínum ráðgjafa á þjónustumiðstöð eða með viðurkenndum meðferðaraðilum. Með vísan til þess er synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. september til 31. desember 2020 staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 7. september 2020, um synjun á umsókn A, um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. september til 31. desember 2020, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum